sunnudagur, 3. október 2010

Helgin

Jæja, nú hlýtur heilsan að fara að lagast. Fór í blóðprufu og fékk niðurstöður á föstudaginn og lyfseðil fyrir járni og banönum (eða bönunum?). Þá á mér víst að fara að líða betur. Held að orkan sé jafnvel aðeins að aukast hjá mér, a.m.k. hefur helgin verið afkastamikil og góð.

Í gærmorgun Gengum við til Góðs sem var ánægjulegur klukkutíma göngutúr. Allir sem voru heima og með meðvitund þetta snemma á laugardagsmorgni gáfu í baukinn (annars hótaði ég þeim að þeir fengju á baukinn, heheheee). Sumir voru auðvitað ekki vaknaðir ennþá og þóttust ekkert heyra í dyrabjöllunni. Svo voru þeir sem voru ekki enn farnir að sofa og vildu bara fá okkur með í partíið! Þar var einn sérstaklega gjafmildur og gaf bara allan ferðasjóðinn sinn eins og hann lagði sig. Hann hefur svo vonandi farið að sofa fljótlega, gat varla staðið í lappirnar greyið!

Eftir gönguna skelltum við okkur í sund og fengum m.a.s. smá sól á okkur, mjög ljúft. Dagurinn var svo toppaður með heimagerðri pizzu í kvöldmatinn, slúúúrrp!

Í dag rúlluðum við okkur í Borgarnes að sjá Einar Áskel í Brúðuheimum. Mikið flott og mikið gaman, væri alveg til í að fara þarna aftur til að eyða eins og dagsparti í að skoða sýninguna og umhverfið þarna í kring. Stefnum bara að því næsta sumar.

Og svo eitt til viðbótar sem tókst að afreka þessa helgi, ég er nánast búin að taka upp kartöflurnar! Bara smá horn eftir. Þannig að orkan hlýtur bara að vera á uppleið. Vonandi kemst ég líka út að hlaupa bráðum, hef ekkert komist í það í þrjár vikur og það er nú ekki gott...

Annars er margt spennandi framundan sem jafnvel verður skrifað um eftirá hér :)